top of page

Abd Errachia Buzu

 

Hinn 25 ára gamli Abd Errachia Buzu frá Níger hefur ferðast um heiminn síðustu ellefu árin í leit að hæli. Hann hefur verið á Íslandi í rúmt ár en hefur nú verið tilkynnt að hann verði sendur úr landi.

     Fjórtán ára gamall lagði hann upp frá Níger til Ghana og Líbýu, þaðan sem hann komst yfir til Ítalíu. Þar dvaldist hann í átta ár við heldur slæm kjör, stundaði nám um tíma en þegar hann var 18 ára neyddist hann til að hætta námi til að geta borgað skuldir. Er honum var loks synjað um hæli á Ítalíu lá leið hans til Þýskalands. Þaðan ákvað hann að halda til Íslands, þó ekki til að sækja um hæli heldur til að hafa hér viðkomu á leið sinni til Kanada þar sem hann hugðist setjast að, en þannig vonaðist hann til að geta sloppið undan því að verða endursendur til Ítalíu á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar. Því miður var hann gripinn á flugvellinum hér með fölsuð skilríki og neyddist til að sækja um hæli, sem hann fékk ekki. Hér vofði yfir honum fangelsisvist vegna fölsunarinnar, en sem betur fer tókst honum að fá lögfræðing sem sýndi fram á að vegna skorts á upplýsingum frá heimalandinu hefði fölsunin verið örþrifaráð; hann hefði ekki átt annarra kosta völ til að komast burt úr Þýskalandi. Honum var fljótlega komið fyrir í flóttamannaíbúð þar sem hann kynntist manni sem útvegaði honum herbergi í húsnæði á Laugavegi þar sem hann hefur búið síðan í júlí 2014.

     Á Íslandi hefur Abd haft lítið sem ekkert að gera þar sem hann gat hvorki fengið starf né nám og líf hans hér hefur einkennst af bið eftir fregnum af því hvernig umsókn hans reiddi af í kerfinu. Fyrir fjórum mánuðum fékk hann svo þau tíðindi að hann yrði fluttur aftur til Ítalíu á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar og nú á hann von á að verða sóttur af lögreglunni á hverri stundu. Hann veit ekki hvað bíður hans og segir að ef yfirvöld í Ítalíu haldi áfram að brjóta á mannréttindum hans muni hann reyna að koma sér aftur til Íslands og halda áfram að berjast fyrir því að hann fái hæli hér.

     Að mati Abds eru mannréttindamál í mun betri farvegi hér á landi en á Ítalíu. Hér fái hann húsnæði, matarpeninga og aðra aðstoð, en það hafi hann ekki fengið á Ítalíu, og hér sé komið betur fram við hann en þar. Raunar segist hann halda að óvíða sé jafn vel búið að hælisleitendum og hér á landi. Hér hafi hann íbúð, en á Ítalíu bíði hans ekkert annað en að vera á götunni og fullkomin óvissa um hvað framtíðin beri í skauti sér.

bottom of page