top of page

Christian K. Boadi

 

Christian fæddist í Ghana árið 1978. Hann er menntaður rafvirki, en faðir hans var stjórnmálamaður, andstæðingur forsetaframbjóðandans John Kufuor í forsetakosningu árið 2000. Kufuor var kjörinn forseti, en faðir Christians var skotinn til bana fyrir framan augu sonar síns í kjölfar kosningarinnar. Eftir morðið var Christian beittur líkamlegu ofbeldi af hálfu morðingja föður síns, nokkrar tennur voru teknar úr honum og klippa átti af honum fingurna. Christian tókst sem betur fer að komast undan, hann fór huldu höfði í Búrkína Fasó í nokkur ár og flýði þaðan til Ítalíu en sótti ekki um hæli þar heldur fékk tímabundið landvistarleyfi með aðstoð vinar síns og starfaði við ræstingar.

     Því miður missti Christian vinnuna þegar efnahagur Ítalíu féll árið 2008 og gat hann því ekki fengið neitt frá velferðarkerfinu þar. Honum var hent út á götu og hann neyddist til að lifa sem heimilislaus maður í fjögur ár, þar til landvistarleyfi hans rann út. Hann gat ekki snúið aftur til Ghana og kaus að koma til Íslands árið 2013 og sækja um hæli hér. Íslensk yfirvöld höfnuðu að taka upp mál Christians vegna Dyflinnarreglugerðarinnar, en nú bíður mál hans meðferðar fyrir Hæstarétti. Rætist vonir hans um landvistarleyfi og starf hér á landi vonast hann til að geta greitt fyrir menntun dætra sinna tveggja í heimalandinu, en að þær og eiginkona hans geti flutt hingað til lands er enn fjarlægur draumur.

 

bottom of page