top of page

Samantekt, niðurstaða og lokaorð

 

Við lok verkefnavinnunnar höfum við orðið margs vísari um stöðu hælisleitenda á Íslandi. Að sjálfsögðu þarf að forðast að draga of almennar ályktanir út frá einstökum dæmum en þó segja þau sína sögu. Það eitt að hafa fengið að kynnast hælisleitendum, heyra þá segja sögu sína og ræða við aðra sem láta mál þeirra sig varða hefur haft mikil áhrif á okkur, líklega mun meiri áhrif en það sem við höfum lesið hefur haft. Það að sjá mál hælisleitenda fullkomlega frá þeirra sjónarhorni gerir mann meðvitaðan um líðan þeirra og aðstæður og veitir manni innsýn frá fyrstu hendi í þær raunir sem þeir hafa mátt þola og þann heim sem þeir lifa og hrærast í.

 

Við höfum komist að því að þegar á heildina er litið eru aðstæður hælisleitenda á Íslandi betri en víðast hvar annars staðar, þótt margt mætti hér betur fara. Hingað til hefur biðin eftir svari við hælisumsókn reynst hælisleitendum mikil sálarkvöl en Útlendingastofnun og innanríkisráðuneytið stefna nú að því að stytta þann tíma og koma betri reglu á yfirferð umsókna. Iðjuleysi og athafnaleysi hefur einkennt dvöl hælisleitendanna sem við höfum rætt við og fengið upplýsingar um, en þeir fá ekki tækifæri til að vinna og gagnast samfélaginu á þann hátt sem þeir vilja.

 

Dyflinnarreglugerðin var okkur einnig afar hugleikin þar sem flestir bera henni slæma söguna. Svo virðist sem hún sé helst hugsuð til að hefta straum hælisleitenda á milli Schengen-landa og ekki er að sjá að hún hafi hagsmuni hælisleitendanna sjálfra að leiðarljósi. Stjórnvöld í Evrópu (m.a. á Íslandi) eru talin beita henni líkt og í henni felist ófrávíkjanleg regla um að senda skuli alla hælisleitendur sem hafa átt viðkomu í öðru Evrópulandi áður til baka, en þó kemur skýrt fram í reglugerðinni að hún skuldbindur ekki stjórnvöld til að senda hælisleitendurna til baka heldur veitir þeim einungis heimild til þess.

     Ísland er afskekkt eyja og hingað er erfitt að komast. Þar með er oft nær tryggt að hælisleitendur hafi haft viðkomu á öðrum stað áður en hingað var komið. Því eru langflest hælisleitendamál hér á landi dyflinnarmál og flestum hælisleitendum vísað úr landi á grundvelli reglugerðarinnar. Í stað þess að skoða málin í kjölinn og meta hvert tilvik fyrir sig eru niðurstöður hælisumsókna í öðrum löndum skoðaðar. Hafi hælisleitanda verið hafnað á einum stað er honum oftast einnig neitað um hæli hér. Hælisleitandinn getur því ekki ferðast á milli landa og reynt að byrja upp á nýtt á hverjum stað heldur verður hann að gjalda fyrir að hafa haft viðkomu annars staðar á leið sinni hingað. Sumir hælisleitendur eru sendir burt frá fjölskyldum sínum hér á landi en aðrir treystu sér ekki til að taka fjölskylduna með í hið langa ferðalag hingað til lands og hún lifir því enn í hættu í heimalandinu.

 

Hælisleitendurnir sem við náðum sambandi við tóku okkur flestir vel og vildu ræða við okkur, en aðrir treystu sér ekki til þess þar sem þeir óttuðust um líf fjölskyldna sinna ef þeir segðu sögu sína. Þeir hafa margir hverjir kljáðst við skelfilegar aðstæður í heimalandinu og neyðst til að flýja til að bjarga lífi sínu. Sumir lifa í stöðugum ótta og vita ekki hvað bíður þeirra; hvort þeir fái hæli hér, hvort þeir geti komið fjölskyldum sínum hingað, eða hvort það eigi að senda þá einhvert annað og hvað bíði þeirra þar. Í aðgerðarleysinu og óvissunni líða margir þeirra sálarkvalir meðan þeir velta fyrir sér framtíð sinni og fortíð og líðan ættingja. Ef þeir fengju tækifæri til að nýta tíma sinn betur hér á landi, í námi eða einhvers konar starfi, liði þeim eflaust betur þar sem það dreifði huga þeirra, þroskaði þá og styrkti og kenndi þeim eitthvað nýtt. Þeir sem við ræddum við sammæltust allir um að þeir vildu gera eitthvað sem gagnaðist samfélaginu, starfa einhvers staðar, þó svo að þeir fengju jafnvel ekki há laun.

 

Það að hælisleitendur hafi hér húsnæði og fái fjárframlag sem nægir þeim til nauðþurfta gerir Ísland frábrugðið mörgum öðrum löndum þar sem hælisleitendur neyðast til að lifa á götunni og draga fram lífið við þröngan kost. Ísland tekur þó við mun færri hælisleitendum á ári hverju en flest önnur lönd í Evrópu miðað við höfðatölu (einungis 22 árið 2013 og 33 árið 2014) og ættum við að sjálfsögðu að geta tekið við fleirum. Þó við börmum okkur mikið eftir fjárhagsáföll er Ísland eitt af þeim löndum í heiminum sem býr við hvað best lífskjör. Þar sem flóttamannavandi heimsins er gríðarlegur og fólk flýr í miklum mæli frá þriðja heims ríkjum, m.a. vegna vandamála sem vestræn ríki hafa átt beinan þátt í að skapa (hér má nefna ýmiss konar átök í Miðausturlöndum, svo sem stríðin í Líbýu og Írak), ætti Ísland sem fyrsta heims ríki að geta lagt mun meira af mörkum til að leysa flóttamannavandann. Að sjálfsögðu kostar peninga að koma hælisleitendum inn í samfélagið og yfir þann hjalla sem fortíð þeirra skapaði en það getur samt margborgað sig, jafnt fyrir hælisleitendurna og ríkið okkar.

 

Sumir óttast fjölbreyttara mannlíf á Íslandi og líta á fjölmenningu sem neikvætt hugtak. Kynþáttafordómar eru enn við lýði í þjóðfélaginu okkar sem og í öðrum Evrópulöndum og hælisleitendur eru því miður enn ósjálfrátt stimplaðir af mörgum sem gagnslausir útlendingar sem eru byrði á samfélaginu og frekar til ama. Almennt virðist vera litið á kvótaflóttamenn jákvæðari augum, bæði af yfirvöldum og almenningi, jafnvel þótt aðstæður þeirra séu ekki endilega verri en hælisleitendanna og þeir síðarnefndu séu að sjálfsögðu alveg jafn góðar manneskjur. Kvótaflóttamenn njóta þeirrar gæfu að vera viðurkenndir sem flóttamenn af Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna. Þannig komast þeir sjálfkrafa til Evrópuríkja þar sem þeim er veitt sú aðstoð sem þeir eiga rétt á. Hælisleitendur þurfa að komast af sjálfsdáðum milli landa og sækja sjálfir um hæli, en ferlið reynist þeim oft afar erfitt, sérstaklega eftir átökin og vanlíðanina sem þeir hafa oft þolað í heimalandinu.

 

Flóttamannavandinn er hluti af stærri vandamálum í þriðja heiminum. Ef vinna á bug á honum er ekki nóg að liðsinna hælisleitendum heldur þarf að ráðast á rót vandans. Ábyrg stefna í alþjóðamálum hlýtur að fela í sér bæði þróunaraðstoð og stuðning við mannréttindi á vettvangi alþjóðastofnana. Allt of víða stendur fólk frammi fyrir stríðsógnum, óstjórn, trúarbragðadeilum, kynþáttahatri, hungri, fátækt, fáfræði og vonleysi. Með því að aðstoða fólkið í heimalöndum sínum og koma í veg fyrir að harðstjórnir og öfgasamtök valti yfir varnarlaust fólk væri ráðist á flóttamannavandann þar sem upptök hans eru.

bottom of page