top of page

Paul Ramses Odour

 

Mál Paul Ramses Odour vakti mikla athygli á Íslandi árið 2008 og má segja að það hafi verið fyrsta stóra hælisleitendamálið sem upp kom hér á landi (sjá texta um Jón Bjarka). Paul Ramses var upphaflega í skiptinámi hér og starfaði hjá ABC barnahjálp og hafði því myndað hér góð tengsl við land og þjóð.

     Eftir að hafa verið beittur grimmilegu ofbeldi í Kenýa, jafnt líkamlega sem sálarlega, neyddist hann til að flýja land og eftir langt ferðalag komst hann hingað, í faðm ófrískrar konu sinnar, Rosemary. En eftir að hafa sagt frá ofbeldinu og hörmungarástandinu í Kenýa í viðtali við Stöð 2 hafði lögreglan samband við hann og tilkynnti honum að hann gæti ekki fengið að vera hér, þó hann hefði sótt um hæli. Að sjálfsögðu fannst Ramses óhugsandi að yfirgefa konu sína sem var veik eftir barnsburðinn og þriggja vikna son sinn. Það þurfti hann engu að síður að gera, jafnvel þótt hann hefði ekki gert neitt rangt í umsóknarferlinu og vildi ekki með nokkru móti fara til Ítalíu, sem hafði verið viðkomustaður hans á leiðinni hingað.

     Málið vakti svo mikla reiði meðal Íslendinga að tveir menn, Haukur Hilmarsson og Jason Thomas Slade, hlupu í veg fyrir flugvélina sem átti að flytja Ramses til Ítalíu. Segir hann sjálfur að þeir, ásamt hinum sem mótmæltu meðferð hans hér á landi, hafi í raun bjargað lífi hans, því síðar neyddist þáverandi dómsmálaráðherra, Björn Bjarnason, til að veita Ramses hæli hér á landi. Nú býr hann í Hafnarfirði ásamt Rosemary og börnum þeirra tveimur og starfar við ræstingar, auk þess að fjármagna stúlknaskóla í Kenýa (sem ber heitið Verslo).

 

bottom of page